Keppnin fer fram á hinum sögufrægar Royal Lytham & St Annes Golf Club á Englandi og stendur keppnin yfir dagana 2.- 5. ágúst. Þetta er í 42. skipti sem Opna breska meistaramótið fer fram í kvennaflokki.
Valdís Þóra hefur æft á vellinum undanfarna daga og hún segir að aðstæður séu góðar. Útlit sé fyrir úrkomu á fimmtudaginn og vindurinn mun að sjálfsögðu leika stórt hlutverk á þessum strandvelli.
„Royal Lytham & St Annes er í hæsta gæðaflokki. Hann er aðeins mýkri en völlurinn í síðasta móti í Skotlandi. Það hefur rignt aðeins hérna s.l. daga. Völlurinn er með nokkrar langar par 4 holur og einnig nokkrar stuttar par 4. Markmiðið er að spila eins og vel og hægt er, og vonandi verður skorið gott“
Mótið er eitt af fimm risamótum hvers árs hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki. Valdís Þóra hefur leikið á einu risamóti á ferlinum, Opna bandaríska meistaramótinu, sem fram fór í fyrra. Valdís Þóra verður þar með annar íslenski kylfingurinn sem tekur þátt á Opna breska meistaramótinu í kvennaflokki.
Valdís hefur leik kl. 10:04 á fimmtudaginn og líklega um 14:44 á föstudaginn. Karl Ómar Karlsson, annar af þjálfurum hennar, verður með henni til aðstoðar. Hlynur Geir Hjartarson er einnig þjálfari Valdísar.
„Ég verð með kylfubera frá Skotlandi en hann var með mér í síðustu viku á mótinu í Skotlandi. Hann heitir Paul MacMichael og starfar sem kylfuberi á Gleneagles vellinum í Skotlandi,“ bætti Valdís Þóra við.
Royal Lytham St Annes er einn þekkasti golfvöllur Bretlandseyja. Þar hafa fjölmörg risamót farið fram þar á meðal Ryder-bikarinn. Opna breska meistaramótið í karlaflokki hefur ellefu sinnum farið fram á þessum velli.