Fyrri vinnustofa Golfsambands Íslands um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fór fram síðastliðin föstudag á Teams. Vel var mætt á vinnustofuna sem er fyrsta skrefið í fjölþættri árvekni- og verkefnavinnu með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Markmið vinnunnar er að golfklúbbar á Íslandi verði mikilvægt hreyfiafl sem aðstoðar við að ná markmiðum heimsmarkmiðanna fyrir árið 2030.
Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, opnaði vinnustofuna með hvatningarorðum til stjórna um mikilvægi þess að sem flestir taki þátt í stefnumótunarvinnunni. Síðan fór Hulda Bjarnadóttir í stjórn GSÍ og formaður markaðs- og kynningarnefndar yfir skipulag vinnunnar og tilgang hennar. Hún tíundaði markmið þess að Golfsambandið skapi vettvang sem kemur með tillögur að þróun og samstarfi sem styður við sjáfbæra þróun heimsmarkmiðinna til ársins 2030.
Gunnar S. Magnússon, yfirmaður sjálfbærni hjá EY á Íslandi, fór yfir skilgreiningar á sjálfbærni og heimsmarkmiðum SÞ og hvernig þau geti tengst rekstri fyrirtækja og stofnana. Hann fjallaði meðal annars um það hvernig kröfur til sjálfbærni í rekstri fyrirtækja hafi verið að aukast. Sjálfbærni sé góður „business“ þar sem unga kynslóðin væri meðal annars farin að meta fyrirtæki sem þau vilja skipta við og vinna hjá eftir sjálfbærniáherslum.
Bjarni Hannesarson, vallarstjóri Nesklúbbsins fjallaði um tækifærin fyrir breyttu samtali við stjórn og sveitarfélög eftir að heimsmarkmiðin hefðu verið innleidd. Mörg verkefna sem unnin hafa verið innan golfklúbba á Íslandi rími vel við heimsmarkmiðin.
Eva Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Podium ehf. fjallaði um víðtæk áhrif af því að bregðast við þeim áskorunum sem loftslagsvandinn skapar okkur og þeim efnahagslegu áhrifum sem eru staðreynd vegna COVID-19. Heimsmarkmiðin setji fram markmið um efnahagslega, félagslega, umhverfislega þætti. Hún kom einnig inn á mikilvægi þess að vera sjálfbærnileiðtogi í sínu umhverfi og að þeir leiðtogar geti komið úr öllum kimum samfélagsins.
Á vinnustofu 2 sem haldin verður 12. maí næstkomandi verður farið yfir heimsmarkmiðin og tengingu þeirra við íslensk verkefni og íslenska golfklúbba. Þar munum við velja þau heimsmarkmið sem hreyfingin vill leggja áherslu á til framtíðar. Allir sem hafa áhuga eru hjartanlega velkomnir en við viljum hvetja alla golfklúbba og einingar innan Golfsambands Íslands að senda að lágmarki einn fulltrúa á vinnustofurnar tvær sem í boði verða.
GSÍ og heimsmarkmiðin – skráning á vinnustofu 2
Kynning á fræðslumynd Davids Attenborough á Netflix.