Golfklúbbur Vestmannaeyja gerði nýverið samning til tveggja ára við Vestmanneyjabæ. Um er ræða samstarfssamning um útfærslu íþróttastarfs í Golfklúbbi Vestmannaeyja og aðra þjónustu sem klúbburinn mun veita. Sigursveinn Þórðarson formaður GV og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, skrifuðu undir samninginn.
Stærsta mót ársins, Íslandsmótið í golfi 2022, fer fram á Vestmannaeyjavelli dagana 4.-7. ágúst og er því margt áhugavert framundan í keppnisgolfinu á einum þekktasta keppnisvelli landsins, Vestmannaeyjavelli.
Megináhersla samningsins er á skipulagt íþróttastarf fyrir börn og unglinga undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda, en jafnframt á keppnis- og afreksíþróttafólk. Vestmannaeyjabær mun með samningi þessum styðja við fjárhagslegan rekstrar- og starfsgrundvöll félagsins með beinum fjárframlögum, sem og fjárfestingu í uppbyggingu golfskálans. Með því verður öll aðstaða golfklúbbsins bætt til muna.
Fram kemur í samningum að framlag Vestmannaeyjarbæjar við nýbyggingu við golfskála verði 20 milljónir kr. á ári næstu þrjú árin – og eignast bærinn helming í nýja hluta hússins.
Framlag bæjarsins til almenns reksturs GV er rúmlega 10,5 milljónir kr., umhirðu og framkvæmdastyrkur er um 16,3 milljónir kr. og framlag til að ráða sumarstarfsmenn er um 1,6 millj. kr. á ári.
Nánar í þessu skjali hér fyrir neðan.