/

Deildu:

Auglýsing

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ skrifaði eftirfarandi pistil í 5. tbl. Golf á Íslandi sem kom út í desember 2017.

Kæru kylfingar

Besta ár golfhreyfingarinnar frá upphafi er nú að líða undir lok. Eftir stöðnun í fjölgun kylfinga undanfarin ár er íslenskum kylfingum aftur farið að fjölga og eru þeir í dag yfir 17 þúsund talsins og hafa aldrei verið fleiri. Til samanburðar eru skráðir iðkendur innan knattspyrnuhreyfingarinnar rúmlega 23.000 talsins. Golfsambandið er því næststærsta sérsambandið innan ÍSÍ og jafnframt það elsta – 75 ára.

Golfhreyfingin fagnaði hins vegar ekki einungis nýjum áföngum í iðkendafjölda á árinu, því íslenskir afrekskylfingar stóðu sig betur en nokkru sinni fyrr. Ber þar helst að nefna frábæran árangur Ólafíu Þórunnar, Valdísar Þóru, Birgis Leifs og Axels. Varla liðu meira en nokkrar vikur á milli nýrra og stórkostlegra áfanga hjá þessu frábæra afreksfólki og hreyfingin hafði vart undan við að fagna. Þetta hefur því verið virkilega skemmtilegt ár.

Ég hef oft verið spurður að því í gegnum tíðina hvers vegna golfhreyfingin ver svona miklum fjármunum í afreksstarf en svarið blasti við okkur á þessu ári. Með því að eignast kylfinga í fremstu röð eignast íþróttin fyrirmyndir fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref, þá sem ætla sér lengra og alla hina sem fyllast stolti yfir árangri íslensks íþróttafólks á erlendum vettvangi. Árangur okkar bestu kylfinga er öðrum kylfingum hvatning, óháð getu. Það er á stundum sem þessum sem öll vinnan og fyrirhöfnin hefur borgað sig.

En talandi um góðan árangur. Golfsambandið stóð nýverið fyrir þjónustukönnun á meðal kylfinga. Könnunin var gerð bæði meðal þeirra sem eru skráðir í golfklúbb og þeirra sem hættir eru í golfklúbbi. Í könnunni var óskað eftir afstöðu kylfinga til ýmissa þátta þeirrar þjónustu sem íslenskir golfklúbbar veita kylfingum og eru kannanir sem þessar afar mikilvægur liður í bættri þjónustu golfklúbbanna og golfsambandsins. Þá er ekki síður mikilvægt að geta borið saman niðurstöður á milli ára til að átta sig betur á því hvort hreyfingin er á réttri leið. Ég vil því nota tækifærið og þakka þeim sem gáfu sér tíma til þess að taka þátt í könnuninni.

Það er gaman frá því að segja að heilt yfir var viðhorf kylfinga gagnvart golfklúbbum sínum gott og kylfingarnir eru ánægðir í hreyfingunni. Margar merkilegar niðurstöður má finna í könnuninni en meðal þeirra má nefna að:

  • 77% kylfinga leika golf a.m.k. einu sinni í viku yfir þá mánuði sem hægt er að leika golf.
  • Konur leika meira golf en karlar þar sem 45% kvenna leika golf þrisvar sinnum eða oftar í viku á meðan 37% karla leika svo mikið golf.
  • Helstu ástæðu þess að fólk hefur hætt í golfi má rekja til tímaskorts en 34% þeirra sem eru hættir í golfklúbbi gáfu upp þá ástæðu. Það voru ekki nema 1% aðspurðra sem sögðu ástæðuna vera þá að golf væri ekki nógu skemmtilegt.
  • Af þeim sem eru hættir að leika golf voru einungis 15% sem telja að þeir muni ekki leika golf í framtíðinni. Aðrir eru líklegir til að þess að byrja í golfi að nýju.
  • 76% núverandi félagsmanna myndu vilja fast árgjald í stað árgjalds sem tæki mið t.d. af fjölda leikinna hringja. Langstærstur hluti vill því hafa óbreytt fyrirkomulag þegar kemur að árgjöldum klúbbanna.
  • 73% kylfinga myndu vilja greiða sama árgjald og þeir greiða í dag fyrir óbreytt aðgengi að vellinum sínum. Þ.e.a.s. þeir vilja ekki að félagsmönnum fækki, aðgengi að rástímum verði breytt, mótum verði fækkað o.fl. – gegn því að greiða hærra árgjald. Flestir eru sáttir við núverandi fyrirkomulag.
  • 85% kylfinga finnst aðild að sínum golfklúbbi vera peninganna virði.
  • 68% kylfinga eru ánægðir með leikhraða á meðan 12% eru óánægðir.
  • 30% kylfinga finnst klúbburinn sinn leggja of litla áherslu á félagsstarf en 68% kylfinga finnst áherslan vera hæfileg.
  • 63% kylfinga myndu mæla með sínum golfklúbbi við aðra kylfinga á meðan 11% myndu ekki mæla með klúbbnum sínum við aðra.

Auðvitað voru spurningarnar og niðurstöðurnar miklu fleiri en ég leyfi mér að nefna okkur atriði í dæmaskyni. Gerð könnunarinnar heppnaðist vel og mega klúbbarnir vel við niðurstöðurnar una.

 

Frá 9. braut á Bakkakotsvelli. Mynd/seth@golf.is

Ljóst er að íslensk golfhreyfing stendur frammi fyrir fjölmörgum sóknartækifærum á næstu árum og þau tækifæri þarf að nýta vel. Hvort sem horft er til aukins áhuga erlendra ferðamanna, aukins áhuga kvenna á íþróttinni eða aukinnar þátttöku íslenskra afrekskylfinga í sterkustu golfmótum heims, þá blasir við að bjart er fram undan í íslensku golfi. Golf er frábær íþrótt, með frábær gildi og hefur íþróttin fest sig rækilega í sessi hér á landi. Við megum vera stolt af íþróttinni okkar og ég er viss um að okkur tekst að gera enn betur á næsta ári.

Ég vil þakka öllum golfklúbbunum og starfsfólki þeirra fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Sérstakar þakkir fá allir sjálfboðaliðarnir í klúbbunum sem lögðu á sig mikla vinnu til að aðrir gætu leikið golf við betri aðstæður en áður.

Ég óska öllum kylfingum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla.

Haukur Örn Birgisson
Forseti Golfsambands Íslands

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ