Alls eru rúmlega sextíu golfvellir á Íslandi. Myndin sýnir staðsetningu valla innan GSÍ (hvít og græn tákn) og jarðvegssýna sem þegar skráð eru í gagnabanka LBHÍ (rauðgul). Hluti þeirra getur nýst Carbon Par-verkefninu og dregið úr fjölda nýrra sýna sem taka þarf til að meta kolefnisbúskap golfvallanna. Mynd birt með leyfi LBHÍ.
Auglýsing

Vinna er hafin við mat á kolefnisforða allra golfvalla innan vébanda Golfsambands Íslands. Með því verður íslensk golfhreyfing sú fyrsta á heimsvísu sem framkvæmir slíka heildarúttekt. Reiknað er með að niðurstöður hennar muni nýtast GSÍ og aðildarfélögum þess til að taka virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum með upplýstri ákvarðanatöku.

Frá þessu er sagt á samfélagsmiðlum Carbon Par. Matið er liður í rannsóknarverkefninu Carbon Par, sem er hugarfóstur golfvallahönnuðarins Edwin Roald og fyrirtækis hans, Eureka Golf, og er unnið í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, undir forystu Jóns Guðmundssonar.

Gras getur bundið kolefni

Reikna má með að golfvellir liggi að einhverju leyti á framræstu votlendi og valdi þannig losun gróðurhúsalofttegunda. Á hinn bóginn getur gras, eins og plöntur almennt, bundið kolefni. Enn fremur gefa rannsóknir, m.a. frá Colorado State-háskóla, til kynna að slegið gras geti bundið meira kolefni en óslegið. Þannig geta golfvellir, eða hlutar þeirra sem liggja á þurrlendi, bundið kolefni. Golfvellir geta því bæði losað CO2 og bundið kolefni, en rannsókninni er ætlað að greina hvar og hvoru megin línunnar golfvellir landsins standa, hvort þeir eru yfir eða undir pari, svo vísað sé hið rótgróna hugtak golfleiksins.

Meðal annarra markmiða verkefnisins eru að tilgreina framræst votlendi á völlunum, sem endurheimta megi án þess að draga úr vinsældum þeirra, og gefa út almennar leiðbeiningar um hvernig golfklúbbar og aðrir rekstraraðilar golfvalla geti bætt kolefnisbúskap þeirra.

Í verkefninu er aðeins litið til kolefnisbúskapar sjálfrar landnýtingar vallanna. Ekki er horft til starfsemi golfklúbbanna, enda eru ýmsar leiðir þegar í boði til að reikna út losun af hennar völdum.

Hefur opnað okkur nýja sýn

„Carbon Par hefur opnað okkur alveg nýja sýn á golfvelli, notagildi þeirra og þá möguleika sem við virðumst hafa til að leggja okkar af mörkum þegar kemur að baráttunni fyrir betra umhverfi og hreinni náttúru. Sú tilhugsun, að slegið gras geti hugsanlega orðið að liði á þeim vettvangi er mjög spennandi og hvetjandi,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, GSÍ, eins af bakhjörlum Carbon Par, í samtali við golf.is.

Að fjárstuðnings frá GSÍ nýtur verkefnið fjárhagslegs stuðnings frá norræna rannsóknasjóðnum STERF, sem GSÍ er stofnaðili að. Einnig lögðu sautján aðildarfélög GSÍ verkefninu lið með valkvæðum fjárframlögum. Aðrir bakhjarlar eru Knattspyrnusamband Íslands, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Reykjavíkurborg. Einnig munu Landmælingar Íslands leggja til vinnu og gögn. Þá gaf Landgræðslan góð ráð við undirbúning verkefnisins, sem reiknað er með að muni standa yfir út árið 2022.

Nánar á vef Carbon Par.

Carbon Par á Facebook.

Carbon Par á Twitter.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ