Site icon Golfsamband Íslands

Vörður tryggingar og GSÍ áfram í samstarfi um golfreglubókina

Frá vinstri: Ingvar Örn Einarsson markaðsstjóri Varðar, Atli Örn Jónsson framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Varðar, Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ og Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ.

Vörður tryggingar og Golfsamband Íslands hafa gert með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára. Samstarfið byggist meðal annars á því að Vörður styrkir Golfsambandið við útgáfu á nýrri alþjóðlegri reglubók sem tók gildi um allan heim 1. janúar 2016. Golfreglubókin verður aðgengileg fyrir kylfinga hjá golfklúbbum landsins í vor.

R&A í Skotlandi og Golfsamband Bandaríkjanna kynntu í lok síðasta árs þær breytingar sem gerðar voru á golfreglunum – og tóku þær breytingar gildi um síðustu áramót.

Eftirfarandi breytingar eru sérstaklega áhugaverðar fyrir kylfinga og dómara:

1. Ný undantekning við reglu 6-6d mun fækka frávísunum. Frá næstu áramótum varðar það ekki lengur frávísun þótt leikmaður skili of lágu skori, ef ástæðan er sú að hann sleppti vítahöggum sem hann vissi ekki, þegar hann skilaði skorkortinu, að hann hafði bakað sér. Í staðinn er vítahöggunum bætt á skorkortið og leikmaðurinn fær tvö aukahögg í víti fyrir hverja holu sem var með of lágu skori.

2. Óleyfilegt verður að festa kylfuna við líkamann þegar högg er slegið. Þessi breyting snýr fyrst og fremst að löngu pútterunum og var kynnt fyrir tveimur árum.

3. Ekki verður lengur sjálfkrafa víti þótt bolti hreyfist eftir miðun, þar sem regla 18-2b er felld niður. Þess í stað þarf að meta hvort leikmaðurinn hafi valdið því að boltinn hreyfðist.

4. Vandamál við að ákvarða hvort leikmaður megi nota farsímann sinn sem fjarlægðarmæli hverfa. Ef staðarreglur leyfa notkun fjarlægðarmæla má frá næstu áramótum nota hvaða tæki sem er, svo framarlega sem leikmaðurinn noti enga þá eiginlega í tækinu sem eru óleyfilegir. Að auki er ekki beitt frávísun fyrr en við endurtekið brot á reglunni.
Ný útgáfa golfreglnanna mun gilda frá ársbyrjun 2016 til ársloka 2019. Unnið er að þýðingu íslenskrar útgáfu reglnanna og verða þær gefnar út á komandi vori.

 

Exit mobile version