Golfsamband Íslands

Vorkveðja frá forseta GSÍ

Kæri kylfingur,

Þegar vorboði þjóðarinnar, heiðlóan, er komin þá óneitanlega upplifir maður spenning hjá kylfingum landsins, en til lóunnar sást í Garðinum á Suðurnesjum nýverið. Hugur okkar hefur sannarlega verið hjá félögum okkar þar í grennd, nánar tiltekið í Golfklúbbi Grindavíkur (GG). 

Félagar úr Grindavík heiðursfélagar GS

Forsvarsfólk Golfklúbbs Grindavíkur hefur gefið út að til standi að halda rekstri klúbbsins gangandi í sumar. Það ríkir þó enn einhver óvissa með hvort Húsatóftavöllur fái tækifæri til að opna á sínum hefðbundna opnunartíma um miðjan apríl en menn eru þó bjartsýnir með að það gangi eftir. Einnig er óljóst með nokkra þætti meðan gos stendur yfir. Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert nágranna sína úr GG að heiðursfélögum í sumar. Þannig býðst félagsmönnum GG að spila Hólmsvöll í Leiru án endurgjalds árið 2024 og fleiri vellir hafa boðið félagsmenn velkomna gegn vægu gjaldi. Það hefur verið afar ánægjulegt að heyra af samstarfsvilja og útréttum örmum golfhreyfingarinnar við þær aðstæður sem á sér enga hliðstæðu. 

Íslandsmeistari karla ver titil á heimavelli

Íslandsmótið í golfi 2024 fer fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja dagana 18.-21. júlí. Undirbúningur gengur vel og í sumar verða 13 ár liðin frá því að Íslandsmótið í golfi fór þar síðast fram. GS hefur haldið Íslandsmótið í golfi í karlaflokki alls 10 sinnum og 8 sinnum í kvennaflokki og þaðan koma margir fyrrum Íslandsmeistarar kvenna og karla. Klúbburinn á ríkjandi Íslandsmeistara í karlaflokki, Loga Sigurðsson. Honum mun því gefast kostur á að verja titilinn á heimavelli í ár.  

„Komdu í golf fræðsluefni“

Golfsamband Íslands hefur gefið út nokkur myndbönd sem eru ætluð sem fræðsluefni fyrir kylfinga sem eru að stíga sín fyrstu skref í golfíþróttinni. Í myndböndunum eru ýmis atriði sem tengjast golfleiknum til umfjöllunar. Hvað á ég að gera þegar aðrir pútta? Hvað á ég að gera við flaggið? Hvernig á ég að umgangast golfvöllinn? Hver byrjar? Að hjálpa til við leit og fleira gagnlegt. Einnig má benda á fréttaflokkinn „Komdu í golf“ á golf.is þar sem ýmsum fróðleik hefur verið safnað saman fyrir þá sem eru að byrja í golfi. 

Landsmót í golfhermum hafið 

Í vetur hafa margir kylfingar nýtt sér hermagolf. Aðstaðan er víða orðin algjörlega frábær. Með heilsárstarfi hafa nokkrir golfklúbbar náð að tengjast enn betur íþróttastarfi skólanna. Sú þróun er ekki bara ánægjuleg, heldur líka mikilvæg upp á nýliðun okkar að gera.
Þetta gefur einnig afrekskylfingunum okkar tækifæri til að æfa við góðar aðstæður allt árið. Eins hafa fjölbreyttari keppnisleiðir litið dagsins ljós og veglegt verðlaunafé í boði fyrir atvinnukylfingana okkar. Gaman er að segja frá því að íslenskir kylfingar hafa verið að ná góðum árangri á Next Golf Tour Trackman-mótaröðinni. 

Landsmótið í golfhermum er nú hafið og er fyrri undankeppninni lokið. Ragnhildur Kristinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2023, var á besta skorinu í kvennaflokki en hún lék á 64 höggum eða 8 höggum undir pari vallar. Ragnar Már Garðarsson var á besta skorinu í karlaflokki en hann lék á 63 höggum eða 9 höggum undir pari. Við bjóðum alla hjartanlega velkomna í íþróttamiðstöð Golfklúbbs Garðabæjar og Kópavogs (GKG), þegar seinni umferðin fer fram dagana föstudaginn 26. apríl og hefst keppni kl. 15. 

Íslensku lýðheilsuverðlaunin afhent í annað sinn 

Golfíþróttin hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu og samkvæmt stefnu Golfsambands Íslands 2020-2027 er markmiðið að golfhreyfingin verði virkur þátttakandi í lýðheilsumálum í samræmi við stefnu ÍSÍ og leggi þar með sérstaka áherslu á þátttöku fjölskyldunnar, ungmenna og eldri borgara.
Forseti Íslands efndi í fyrra til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, ÍSÍ og Geðhjálp. Óskað er tillagna frá almenningi um hver ættu að hljóta þessa viðurkenningu fyrir framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Verðlaununum er ætla að vekja athygli á mikilsverðu framlagi á sviði lýðheilsu og auka með þeim hætti áhuga á bættri heilsu og líðan almennings. Veitt verða verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar til einstaklings og hins vegar til samtaka, stofnunar eða fyrirtækis sem hefur látið gott af sér leiða á þessu sviði. Almenningur er hvattur til að senda inn tillögur að verðugum verðlaunahöfum, ásamt rökstuðningi, á vefsíðunni https://www.lydheilsuverdlaun.is/ fyrir 1.apríl.

Að lokum vonast ég til að ljóðlínur Páls Ólafssonar séu sannspáar um að lóan kveði burt snjóinn þannig að við kylfingar getum farið að vakna og taka vonglöð á móti sumri líkt og segir í kvæðinu. 

Góðar stundir þar til við sjáumst úti á velli. 

Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ.

Exit mobile version