Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Aron Emil Gunnarsson, GOS, sigruðu á Vormóti NK sem fram fór hjá Nesklúbbnum dagana 25.-26. maí. Vormótin eru ætluð kylfingum sem eru með forgjafarlágmörk inn á GSÍ-mótaröðina, 5.5 hjá körlum og 8.5 hjá konum.
Þetta var annað Vormótið í röð sem Ragnhildur vinnur en hún fékk 140.000 kr. í verðlaunafé fyrir sigurinn – líkt og Aron Emil. Ragnhildur var fjórum höggum betri en Berglind Erla Baldursdóttir, GM, og sex höggum á undan liðsfélaga sínum úr GR, Berglindi Björnsdóttur.
Aron Emil sigraði með þriggja högga mun en hann lék á frábæru skor eða 10 höggum undir pari samtals, 130 höggum. Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, gerði atlögu að efsta sætinu með glæsilegu vallarmeti á öðrum keppnisdegi þar sem hann lék á 8 höggum undir pari eða 62 höggum – en hann lék samtals á 7 höggum undir pari.
Alls léku sex leikmenn í karlaflokki undir pari samtals á þessu móti. Daníel Ísak Steinarsson, GK, átti frábæran lokadag þar sem hann lék á 63 höggum eða -7 en hann endaði í fjórða sæti á -3 samtals. Tómas Eiríksson Hjaltested, GR, varð þriðji á -4 samtals.
Smelltu hér fyrir myndasafn frá Vormóti NK 2024.
Úrslit í kvennaflokki:
1. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR 146 högg (+6) (74-72).
2. Berglind Erla Baldursdóttir, GM 150 högg (+10) (78-72)
3. Berglind Björnsdóttir, GR 152 högg (152 högg (+12)(74-78)
Úrslit í karlaflokki:
1. Aron Emil Gunnarsson, GOS 130 högg (-10) (66-64).
2. Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG 133 högg (-7) (71-62)
3. Tómas Eiríksson Hjaltested, GR 136 högg (-4) (71-65)
4. Daníel Ísak Steinarsson, GK 137 högg (-3) (74-63).
5. Jóhannes Guðmundsson, GR 138 högg (-2) (70-68)
6. Kristján Þór Einarsson, GM 139 högg (-1) (68-71)
Vormót með sama snið fór fram hjá Golfklúbbi Suðurnesja 19.-20. maí þar sem að Ragnhildur Kristinsdóttir, GR og Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG stóðu uppi sem sigurvegarar.
Vormótin eru haldin með nýju sniði og eru bestu kylfingar landsins markhópurinn. Mótin telja ekki á stigalista GSÍ mótaraðarinnar eða heimslista áhugakylfinga. Mótin bjóða því upp á meiri sveigjanleika hvað varðar fjölda keppnisdaga og útfærslu.
Þeir kylfingar sem enda á meðal 25% efstu kylfinganna hljóta verðlaunafé. Mótsgjald var 15.000kr sem rann óskipt í verðlaunafé.